Samantekt um þingmál

Lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta

641. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að gera almennum fjárfestum kleift að skilja og bera saman helstu eiginleika pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða og meðfylgjandi áhættu.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér innleiðingu PRIIPs-reglugerðarinnar í íslenskan rétt með setningu nýrra heildarlaga um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta. Samkvæmt reglugerðinni er framleiðendum pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta gert skylt að semja lykilupplýsingaskjal og gera almennum fjárfestum það aðgengilegt áður en gengið er til samninga svo að þeir geti skilið og borið saman lykilþætti og áhættu pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta. Lykilupplýsingaskjölum er ætlað að verða grundvöllur fjárfestingarákvarðana almennra fjárfesta.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Meðal annars var bætt við ákvæði sem afmarkar gildissvið laganna auk þess sem kveðið var á um að Seðlabanki Íslands væri lögbært yfirvald í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.

Aðrar upplýsingar


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/2340 frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta að því er varðar gildistökudag hennar.


Síðast breytt 25.05.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.